Ábyrgð sálfræðings
Sálfræðingur hefur löggild starfsréttindi og notar vísindalega viðurkenndar aðferðir í meðferð, ávallt með velferð skjólstæðingsins í huga. Sálfræðingi ber að viðhalda faglegri þekkingu sinni með því að sækja sér ýmissa sí- og endurmenntunar, til að viðhalda hámarksárangri í sálfræðimeðferð.
Sálfræðingur er bundinn þagnarskyldu um það sem fram fer í meðferð og einnig að viðkomandi einstaklingur sé í meðferð hjá honum. Ef einhver hefur samband við sálfræðinginn og vill ræða um skjólstæðing á meðan á meðferð stendur er skjólstæðingur látinn vita af því.
Þagnarskylda sálfræðings á þó ekki við í eftirfarandi tilvikum:
Ef rökstuddur grunur er um vanrækslu, misnoktun eða ofbeldi á barni eða einhverjum sem er ekki fær um að verja sig, ber sálfræðingi samkvæmt lögum skylda til að tilkynna það.
Ef sálfræðingur metur skjólstæðing sinn í raunverulegri hættu vegna sjálfsskaða, sjálfsvígshugsana eða sjálfsvígstilrauna.
Um meðferðina
Fræðsla sálfræðings og verkefnavinna skjólstæðings eru stór hluti af meðferðinni. Sálfræðingur og skjólstæðingur taka báðir virkan þátt í meðferðinni sem byggir á samvinnu og skuldbindingu þeirra beggja. Leitast er við að styrkja getu skjólstæðings til að taka ábyrgð á eigin líðan og efla með honum færni sem nýtist honum til framtíðar. Árangur meðferðar ræðst að verulegu leyti af virkri þátttöku skjólstæðingsins, eins og mætingu í viðtöl og verkefnavinnu á milli viðtala.
Réttindi og skyldur skjólstæðingsins
Hjá sálfræðingi á skjólstæðingur kost á viðurkenndri og viðeigandi sálfræðimeðferð. Skjólstæðingur leitar af fúsum og frjálsum vilja eftir aðstoð og ákveður sjálfur hvaða mál hann vill vinna með. Ákvörðun um lok meðferðar er gerð í samvinnu beggja aðila. Ef skjólstæðingur ákveður að hætta meðferð áður en henni lýkur, er eðlilegt að hann geri það í samráði við sálfræðinginn.
Minnt er á að skjólstæðingur haldi trúnað við aðra sem hann gæti þekkt eða kannast við á biðstofu.